top of page

Jógaæfingar hjálpa börnum að tengja við líkamann sinn, styrkja hann og liðka ásamt því að æfa jafnvægi og samhæfingu. Þau hafa gaman af að spreyta sig á hinum ýmsu jógastöðum sem líkja oft eftir dýrum, náttúrufyrirbærum eða hlutum. Í jóga er lögð áhersla á að hafa gaman og gefa börnum tækifæri til að hreyfa sig án þess að vera í samkeppni við hvort annað.  

 

 

 

Hér eru nokkrar skemmtilegar jógastöður. Við bætum við í safnið von bráðar. 

Jógaæfingar

Fiðrildið

Sitjið með iljar saman. Haldið um tær og réttið úr baki. Byrjið að blaka hnjánum upp og niður eins og fætur séu fiðrildavængir. Ef þið viljið getið þið lokað augunum, flogið út um gluggann í huganum og farið saman í ferðalag.

Hundurinn

Byrjið á fjórum fótum. Með lófa, hné og tær í gólfi. Þrýstið svo lófum og tám í gólf, réttið úr hnjám og lyftið mjöðmum upp í loft. Myndið þríhyrning með líkamanum. Haldið stöðunni eða labbið um. Sumum hundum finnst gaman að grínast og ímynda sér að hann þurfi að pissa og þá lyftist annar fóturinn beint upp í loftið og hnéð beygt svo iljar snúi að bakinu. Flissið að vild.

Tréð

Standið með fætur saman og beygið hægri fótinn og þrýstið ilinni eins hátt upp á vinstri fótlegg og þið getið. Gott er að nota hægri hendi til að lyfta fætinum hærra upp. Þrýstið lófum saman og teygið hendur upp í loft. Æfið ykkur í að láta tréð sveigjast án þess að missa jafnvægið. Skiptið um fót og endurtakið æfinguna.

Skjaldbakan

Byrjið sitjandi, beygið hnén, hallið ykkur fram með hendur undir fótleggjum. Slakið höfði í átt að gólfi þegar skjaldbakan sefur eða felur sig og lyftið svo höfðinu upp til að kíkja út úr skelinni.

Ljónið

Sitjið á hælum með lófa á hnjám. Þrýstið lófum niður og réttið úr olnbogum. Andið djúpt inn um nefið, opnið svo ginið, teygið tunguna eins langt niður á höku og þið getið og andið út um munninn. Lyftið brjóstkassanum upp og verið hugrökk eins og ljón. Finnið hugrekkið ykkar í hjartanu.

Flamingóinn

Standið með fætur saman. Teygið handleggi beint út til hliðanna, hallið ykkur fram og lyftið vinstri fæti upp fyrir aftan ykkur. Blakið vængjum en reynið að halda jafnvægi á öðrum fæti. Skiptið um fót og endurtakið æfinguna.

  • Wix Facebook page
  • Blogger Basic Square
  • Instagram App Icon
  • YouTube Reflection
  • LinkedIn App Icon
bottom of page